Er komin lús?

Innihald

Innihald

Lús - Baráttusameiningartákn foreldra um allan heim!

Hver elskar ekki að fá tilkynningu frá menntastofnun barnsins síns um að það hafi fundist lús og nú sé tími til að kemba!?! Flestir fara þá samviskusamlega í að kemba og útrýma, en það er alltaf einhverjum sem er bara alveg sama og lúsin blómstrar sem aldrei fyrr. Hvernig í ananas eigum við hin að koma í veg fyrir að þetta kvikyndi taki sér bólfestu í afkomendum okkar, tala nú ekki um okkur sjálfum?

Hér er því smá fróðleikur um lús, fælingarmátt foreldra og útrýmingarherferðir.

kemba fyrir lús
Lús

Fékkstu lúsapóst?

Byrjum á að þakka foreldrunum sem tilkynna um lúsasmit í skólann, annars fengi lúsin að grassera í hinum ýmsu hársvörðum þar til vandamálið, verður að VANDAMÁLI sem getur verið þó nokkuð maus að ná tökum á (tala nú ekki um allan peninginn sem rennur í sjóð lúsasjampóframleiðenda).

Sem betur fer er mýtan um að lúsin þrífist bara í skítugu hári og spretti upp úr óhreinu umhverfi óðum að hverfa. Hún er samt því miður ekki alveg horfin úr sinni okkar landsmanna. Ef við viljum sigra lúsina er fyrsta skrefið í baráttunni hreinlega að henda skömminni á dyr og takast á við vandamálið – það eru nefninlega oft fordómar í okkur foreldrum sem heldur henni gangandi (heppnar lýs!).

Barnið þitt er ekki of fínt til að fá lús, heimilið þitt er ekki of hreint til að lúsin deyji sótthreinsunardauða án frekari afskipta, umhverfið okkar kemur þessu bara ekkert við! Lausnin er ekki og verður aldrei að banna barninu sínu að leika við „krakkann sem við teljum líklegastan til þess að vera með lús.“  Lúsamóðursýkin lifir enn!
Greinarhöfundur hefur sko ekki verið barnanna bestur í fordómum – en stoltinu þarf að kyngja (og móðursýkinni með) þegar upp kemur lús í vel hærðum barnahópi heimilisins og ekkert dugar nema að renna kambinum með tilþrifum í gegnum hárið á grenjandi krakka.

Við verðum að reka skömmina á brott og sameiginlegt átak allra foreldra í lúsaútrýmingu er það eina sem virkar. Og hvað gerum við þá? Við útbúum viðbragðsáætlun!

Í fullkomnum heimi kemba foreldrar börnunum sínum einu sinni í viku og ná því að koma í veg fyrir vandamálið áður en það breiðist út. Einmitt – það er ekki að fara að gerast! Við hjónin höfum kembt aðalmarkhópnum (þ.e. þeim krökkum sem eru á aldrinum 3-12 ára) sirka einu sinni í mánuði (stundum sjaldnar), en það er líka af því að við höfum fengið lús!

Aðalatriðið er að bregðast sem fyrst við þegar lúsapósturinn hefur borist, sama hvort krakkinn er að klóra sér í hausnum eða ekki.

Hér er okkar lúsapóstsviðbragðsáætlun (þróuð af margra ára reynslu og endalausu gúggli).

Fyrsta skref - Er lús?

Að athuga með leynigest!
Hentu krakkanum í bað/sturtu, þvoðu eða skolaðu hárið vel og settu síðan gommu af hárnæringu í hárið og makaðu vel. Alls ekki skola næringuna úr. Greiddu síðan úr makkanum með bursta ef þarf.
Athugaðu að hárnæringin er töfraefni við kembingar, hún gerir það ekki bara auðveldara að renna kambinum í gegn, heldur gerir hún lúsina latari og hún á erfiðara með að flýja þig og kambinn.

Náðu svo í aðalvopnið – lúsakambinn!

Kamburinn þarf að vera af góðum gæðum, því það skiptir máli upp á að ná nitum úr hárinu og auðveldar að klófesta kvikyndin.
Kembdu vel og vandlega í gegnum allt hárið (ekki gleyma hnakka og við eyru þar sem þær elska að eiga heima). Það getur líka verið gott að skipta hárinu í nokkra hluta ef það er sítt.

Ráð:

Ég hef miðað við að fara yfir allt hárið ca. 2-3 sinnum í leit að lús og þegar ég er nokkuð viss um að ekkert lifandi finnist þá teljum við fórnarlambið (þ.e. barnið) saman niður frá 10 rennslum.

Nú spyrðu þig kannski: Hvernig veit ég hvort þetta er lús?
Góð spurning! Eftir grandskoðun á hverju einasta kuski sem kom úr hausnum á börnunum mínum í byrjun þá hef ég bara eitt að segja: „Ef þú ert ekki viss, þá er það líklega ekki lús!“ Þær hreyfa sig (ég fæ alveg klígju við að skrifa þetta og er löngu byrjuð að klóra mér í hausnum), og eru gráar eða ljósbrúnar á litinn. Fínt að gúggla bara mynd af þeim ef þú ert í vafa – en ef kuskið hreyfir sig er krakkinn með lús.

Ef það er enginn lús eftir vandlega yfirferð þá þarftu ekki að lesa lengra.

Jæja, þú hélst áfram að lesa – þú ert með óvelkominn gest á heimilinu (og ég er ekki að tala um tengdamömmu þína!).

Hvað gerum við þá? Þá fyrst hefst skemmtunin!

Annað skref - Meðhöndlun

Meðhöndlun er ofsalega persónubundin og ef þú biður um ráð þá færðu þúsund misgóðar útgáfur.  En grunnatriðið er þetta og því má ekki sleppa: Það þarf að kemba alla aðra í fjölskyldunni  vel og vandlega samdægurs!

Þá er tvennt eftir í stöðunni:

  1. Kaupa lúsameðferð og fylgja leiðbeiningunum alla leið
  2. Eða hreinlega kemba, kemba og kemba!

 

Ekki samt setja lúsameðferð í þá sem eru ekki með lús – það er ekki gott fyrir hársvörðinn og kostar líka helling.

Eftir allskonar prófanir á meðferðum úr apótekum (við lentum í ofurlús sem var ónæm fyrir lúsalyfinu) sem og fjöldan allan af húsráðum, þá virtist virka best fyrir okkur að nota seinna ráðið og kemba heilan helling þar til við töldum víst að partýið væri búið í lúsabæ. Svo höfum við sléttað sítt hár, spreyjað smá tee trea olíu í hárið og buff yfir þar til næsta dag. Þá hefst gamanið aftur í kembingum.

Ef þessi „meðferðarlausa“ aðferð er notuð þá þarf að kemba daglega þar til engin lús finnst tvö skipti í röð. Þá dettur maður í annan hvorn dag í u.þ.b. 10 daga – eftir það, ertu frjáls – þar til næst!

E.s. Það þarf bara að passa að þrífa hárburstana og kannski skipta um koddaver. Fínt að skipta út húfum daglega í smá tíma, þá deyja þessar flökkulýs drottni sínum.

Það er mjög mikilvægt að tilkynna alltaf lúsasmit í skólann og til nánustu fjölskyldu og vina (annars heldur partýið bara áfram)! Það þarf heldur ekki að láta barnið hanga heima ef það hefur fengið meðferð – bara henda buffi á hausinn á því ef fólk er smeykt við smit.

Þriðja skref - Forvörn

Af hverju sagði mér engin að ég gæti mögulega losnað við lúsina áður en hún sér barnið mitt sem álitlegt fórnarlamb (og þar af leiðandi alla í fjölskyldunni).

Það er ekki málið að biðja krakkann um að passa sig á því að vera ekki nálægt hárinu á öðrum krökkum, og alls ekki fá lánaðan bursta, húfur eða hjálma – því þau gleyma sér í leik og satt að segja er þeim slétt sama um móðursýkina í okkur oft á tíðum. Allavega, ekki varpa ábyrgð á barnið því lús skeður bara samt!

Ekkert af þessu er vísindalega sannað, en hefur virkað fyrir okkur seinustu ár (já, við eigum mörg börn með breiðu aldursbili og höfum verið lúsafrí í nokkur ár):

     

      • Flækjusprey á morgnana sem inniheldur Tea Tree olíu eða rósmarín og notkun á sjampó og/eða næring sem inniheldur Tea Tree/Rósmarín

      • Buff á yngri kynslóðina ef tímabilið er þrálátt í (leik)skólanum. Við hættum ekki á að reyna þetta með unglingana.
      • Hægt er að fá á mörgum stöðum hárskraut sem hefur verið meðhöndlað með rósmarín olíu í framleiðsluferlinu og á því að hafa fælandi mátt á lúsina.

     

    Einfalt ekki satt? (en alls ekki skothelt)

    *Athugið að höfundur er ekki sérfræðingur í lúsavörnum, né í efnafræði. Höfundur er bara venjuleg mamma sem elskar ekki lús.

    Höfundur:

    Þóra Gunnur Ísaksen er bæði Framkvæmdastjóri CU2 Heildsölu og margra barna móðir sem býr yfir margra ára reynslu af lúsabaráttu.

    Við mælum með:

    Comb & care lúsavarnar sjampó

    Comb & care lúsavarnar hárnæring

    Comb & care flókasprey

    Hair Detangler flókasprey

    Tengdar greinar
    Er komin lús?

    Þá er tvennt eftir í stöðunni: *Athugið að höfundur er ekki sérfræðingur í lúsavörnum, né...

    Lesa →

    We Value Your Privacy

    We value your privacy. This website uses cookies to enhance your experience and provide personalized content and analytics. By clicking "Accept," you consent to the use of all non-essential cookies. You can customize your preferences or withdraw your consent at any time. For more information about how we use cookies and protect your data, please review our Cookie Policy.